Browsing Tag:

bollur

Annað

Vatnsdeigsbollur

bollur a bolludegi

Þeir sem að þekkja mig vel vita að ég elska bolludaginn og bolludagsbollur. Ég tel það ekki eftir mér að halda fleiri en eitt bollukaffi og borða bollur marga daga í röð. Hver þarf kvöldmat, þegar það eru bollur?! Ég geri þó aðeins vatnsdeigsbollur. Gerbollur, eða rúnstykki með rjóma, finnst mér ekki passa í þennan tiltekna fögnuð.

Ár hvert byrja ég að æfa mig í bollubakstri og klúðra iðulega einum skammti, í það minnsta. Stundum hafa bollurnar fallið, allar sem ein en þær eru svosem ekkert verri á bragðið fyrir það. Ég vil nefnilega að bollurnar hafi ákveðna mýkt, séu ekki þurrar og pappírskenndar. Ég er ekki frá því að nú hafi ég dottið niður á hina einu sönnu uppskrift

Vatnsdeigsbollur

1 Star2 Stars3 Stars4 Stars5 Stars (2 votes, average: 3,50 out of 5)
Loading...
Bakstur
Serves: 18-20 bollur
Cooking Time: 25-28 mín

Einföld og skotheld uppskrift sem er á flestra færi

Ingredients

 • 170 g smjör
 • 400 ml vatn
 • 200 g hveiti
 • 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 4-5 stór egg

Instructions

1

Hitið ofninn í 180 gráður, blástur. 190 gráður ef þið kjósið að nota undir/yfir hita.

2

Hitið saman í potti vatn og smjör og látið sjóða í 2-3 mín, takið af hellunni og látið aðeins rjúka úr.

3

Blandið saman í skál hveiti, salti og lyftidufti.

4

Hellið hveitiblöndunni út í pottinn og hrærið saman með sleif þar til að þétt deigsoppa hefur myndast.

5

Færið yfir í hrærivélaskál og látið rjúka vel úr deiginu, hvílið helst í 10 mín.*

6

Bætið eggjum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Skafið niður úr skálinni reglulega með sleikju.

7

Fimmta eggið skulið þið ekki brjóta beint út í skálina heldur píska saman í lítilli skál og bæta við smátt og smátt þar til að rétt áferð er komin á deigið. Það á að vera frekar þykkt og leka letilega af sleif, þó án mótstöðu.

8

Setjið deigið í sprautupoka með frekar víðum stút og sprautið á bökunarpappír með þokkalegu bili á milli. 12 bollur á plötu ca.**

9

Bakið í 25-28 mín eða þar til bollurnar eru orðnar vel gullinbrúnar. Til að koma í veg fyrir að þær falli skulið þið ekki opna ofninn fyrstu 23 mín.

Notes

*Það er ekki nauðsynlegt að nota hrærivél en það auðveldar vinnuna heilmikið. Þeir sem hafa ekki aðgang að hrærivél geta haft deigið áfram í pottinum og hræra þá eggjunum saman með sleif, einu í einu. **Hægt að nota tvær matskeiðar í stað sprautupoka.

bollur a bolludegi
Fremstar eru Oreo-bollurnar en þær hlutu mikið lof

Þegar bollurnar hafa kólnað byrjar svo fjörið! Ég er mikill aðdáandi hinnar klassísku bollu með sultu, rjóma og glassúr en það er líka gaman að breyta til. Í ár var ég með eftirfarandi útfærslur:

 • Jarðarberjasulta, rjómi og glassúr á toppnum
 • Nutella, jarðarber og glassúr á toppnum
 • Tobleronerjómi, Toblerone kurl, jarðarber og flórsykur á toppnum
 • Nougat, vanillurjómi og flórsykur á toppnum
 • Oreorjómaostafylling, oreorjómi og hvítt súkkulaði á toppnum
 • Karamellusósa, jarðarber, daimrjómi og karamelluglassúr á toppnum
bollukaffid
Hinar klassísku með sultu, rjóma og glassúr sem aldrei klikka

Um að gera að leyfa hugmyndafluginu og bragðlaukunum að ráða för. Njótið sem allra best þessa rest af bolluhelgi og að sjálfsögðu á bolludaginn sjálfan, þann allra helgasta. Þessi veisla er nú bara einu sinni á ári!

XOXO

Stella Rún

Brauð og gerbakstur

Dúnmjúkar brauðbollur

mjukar braudbollur

Það er orðið talsvert langt síðan ég lofaði ykkur uppskriftinni af þessum einstaklega mjúku og góðu brauðbollum. Það er svo fljótlegt og einfalt að skella í þessar og þær eru frábærar á brunch borðið eða sem meðlæti með góðri súpu

Dúnmjúkar brauðbollur

1 Star2 Stars3 Stars4 Stars5 Stars (19 votes, average: 3,58 out of 5)
Loading...
Brauð og gerbakstur
Serves: 18-20 stk
Prep Time: 60 mín Cooking Time: 20 mín Total Time: 1 klst 20 mín

Ingredients

 • 160 gr smjör
 • 5 dl mjólk
 • 2 tsk sykur
 • 1 bréf þurrger
 • 2 tsk salt
 • 750 gr brauðhveiti (í bláu pokunum)
 • Egg, til penslunar
 • Fræblanda eftir smekk

Instructions

1

Hitið saman mjólk og smjör þar til að smjörið er bráðið. Varist að hita of mikið til að passa upp á gerið.

2

Bætið sykri og geri út í mjólkurblönduna og hrærið lítillega. Leyfið að standa í 5 mín þar til að gerið er farið að freyða.

3

Bætið nú salti og hveiti saman við mjólkurblönduna og hnoðið saman í hrærivél eða í höndunum í nokkrar mín.

4

Leyfið deiginu að hefast undir rökum klút í 45 mín.

5

Hitið ofninn í 190 gráður, undir-yfir hita.

6

Mótið bollur úr deiginu og raðið þeim þétt saman á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Ef deigið er of klístrað til að móta bollur þarf að hnoða upp úr smávegis auka hveiti.

7

Penslið með þeyttu eggi og dreifið fræjum yfir bollurnar.

8

Bakið í 18-22 mín eða þar til bollurnar eru fallega gullinbrúnar.

Notes

Ef að gerið freyðir ekki í mjólkurblöndunni þýðir það að eitthvað hafi komið fyrir gerið. E.t.v. hefur blandan verið of heit og gerið því eyðilagst. Ekki láta á blönduna reyna, deigið mun ekki hefa sig. Best er að byrja bara uppá nýtt, enda enginn stórskaði skeður. Best er að deigið sé dálítið klístrað en þannig verða bollurnar mýkstar Ég nota persónulega ekki blástursstillinguna á ofninum í gerbakstri. Mér finnst allt verða frekar þurrt á blæstrinum og það er fátt eins óspennandi og þurrt bakkelsi.

XOXO

Stella Rún